Dreymir skotin

Thea Imani Sturludóttir skýtur að marki Málaga.
Thea Imani Sturludóttir skýtur að marki Málaga. mbl.is/Hákon

Hafdís Renötudóttir, markvörður kvennaliðs Vals í handbolta, átti stórleik í dag og varði 17 skot, þar af eitt vítaskot þegar lið hennar vann Málaga frá Spáni á Hlíðarenda. Með sigrinum eru Valskonur komnar í 8 liða úrslit Evrópubikarsins.

Spurð hvort að fimm marka sigur á liði sem vann þessa keppni fyrir tveimur árum hafi komið henni á óvart sagði Hafdís þetta.

„Nei, ekki eftir fyrri leikinn. Eftir að við náðum að máta okkur við þær í útileiknum þá vissum við alveg að við gætum þetta. Þá er ég ekki að taka neitt af liði Málaga. Þær eru frábærar, spænskir meistarar, unnu Evrópubikarinn fyrir tveimur árum o.s.frv.

Við erum líka fáranlega góðar þegar við erum allar upp á okkar besta og ég verð að hrósa mínu liði fyrir frammistöðuna í dag.“ 

Þú varðir 17 skot í leiknum og átt stórleik í markinu. Hvernig undirbýr markvörður sig fyrir svona leik?

„Það sem ég geri er að ég eiginlega ofgreini leikmenn í þaula. Eftir það þá dreymir mig skotin. En þetta hitti bara í dag. Við gerum líklega öll það sama við markverðirnir. Ég fylgdi líka innsæinu en ekki bara glósunum.“

Ertu með óskamótherja í 8 liða úrslitunum?

„Góð spurning! Nei, veistu ég er bara til í að mæta hverjum sem er. Meira að segja líka Haukum.“

Eitthvað sem kom þér á óvart í leik Málaga í dag?

„Já, það kom mér á óvart hvað markvarslan var lítil hjá þeim en það er bara af því að við mættum undirbúnar og skutum á rétta staði í dag. Þær eru með landsliðsmarkvörð og þetta sýnir bara hvað Valur er með marga góða skotmenn. Ég er bara virkilega stolt af okkur í dag.“

Næsti leikur hjá ykkur er á móti Gróttu. Verður erfitt fyrir Valskonur að ná sér niður á jörðina eftir þennan sigur og undirbúa ykkur fyrir næsta leik? 

„Já, en eins og svo aftur þá nálgumst við þann leik af fagleika og munum ekkert gefa eftir í undirbúningnum fyrir þann leik,“ sagði Hafdís í samtali við mbl.is.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka