Stig á erfiðum útivelli

Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur mörk í kvöld.
Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur mörk í kvöld. mbl.is/Karítas

Litlu munaði að Sandra Erlingsdóttir og samherjar í Metzingen ynnu góðan útisigur í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld.

Þær gerðu þá jafntefli, 28:28, gegn næstefsta liðinu, Thüringer, á útivelli og voru yfir undir lok leiksins.

Sandra skoraði fjögur mörk í leiknum úr jafnmörgum skotum. Lið hennar er í sjöunda sæti með 14 stig úr 14 leikjum eftir að hafa byrjað tímabilið mjög illa.

Blomberg-Lippe vann heimasigur á Dortmund, 29:25, og var þó án íslensku landsliðskvennanna, Díönu Daggar Magnúsdóttur og Andreu Jacobsen sem báðar eru meiddar.

Ludwigsburg með 24 stig, Thüringer með 21, Dortmund með 21 og Blomberg-Lippe með 21 eru í fjórum efstu sætunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert