Afturelding ekki í vandræðum með nýliðana

Ihor Kopyshynskyi skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu.
Ihor Kopyshynskyi skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Afturelding vann öruggan sigur á ÍR, 34:27, þegar liðin mættust í 15. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.

Afturelding er áfram í öðru sæti deildarinnar en nú með 22 stig, aðeins einu stigi á eftir toppliði FH. ÍR er enn í 11. og næstneðsta sæti með átta stig.

Heimamenn voru með yfirhöndina allan leikinn. Staðan í hálfleik var 18:10 og sigldi Afturelding að lokum þægilegum sigri í höfn.

Einar Baldvin Baldvinsson fór hamförum hjá Aftureldingu er hann varði 18 skot og var með 46 prósent markvörslu.

Markahæstur hjá Aftureldingu var Ihor Kopyshynskyi með sjö mörk. Birgir Steinn Jónsson bætti við sex mörkum.

Baldur Fritz Bjarnason var einu sinni sem áður markahæstur hjá ÍR en hann átti stórleik og skoraði 14 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert