Eyjamenn unnu nýliðana

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV.
Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV. mbl.is/Eyþór

ÍBV gerði góða ferð í Grafarvoginn og lagði þar nýliða Fjölnis, 30:26, í 15. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í kvöld.

ÍBV er áfram í sjötta sæti en nú með 16 stig og Fjölnir heldur kyrru fyrir á botninum með sex stig.

Mikið jafnræði var með liðunum lengst af. Staðan var 12:12 í hálfleik og 23:23 þegar tæplega 11 mínútur voru eftir.

ÍBV náði þá að slíta sig frá heimamönnum með því að skora fimm mörk í röð. Staðan orðin 28:23 og unnu Eyjamenn að lokum góðan fjögurra marka sigur.

Sigtryggur Daði Rúnarsson var markahæstur í leiknum með sjö mörk. Daniel Vieira bætti við sex mörkum og Gabríel Martínez skoraði fimm.

Elvar Þór Ólafsson var markahæstur hjá Fjölni með sex mörk og spilandi þjálfarinn Gunnar Steinn Jónsson var með fimm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert