HK fór illa með Gróttu

Ágúst Guðmundsson skoraði tíu mörk fyrir HK.
Ágúst Guðmundsson skoraði tíu mörk fyrir HK. Ljósmynd/Egil Bjarni Friðjónsson

HK vann afar sterkan sigur á Gróttu, 29:23, er liðin mættust í 15. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld.

HK fór með sigrinum upp í áttunda sæti þar sem liðið er með 12 stig en Grótta fór niður í tíunda sæti og er enn með tíu stig.

HK stýrði ferðinni stóran hluta leiksins og var fimm mörkum yfir, 15:10, í hálfleik.

Í síðari hálfleik komst Grótta ekki nær HK en þremur mörkum og gestirnir úr Kópavogi unnu að lokum öruggan sex marka sigur.

Ágúst Guðmundsson var markahæstur í leiknum með tíu mörk fyrir HK. Jovan Kukobat varði þá 13 skot í markinu og var með 37 prósent markvörslu.

Hjá Gróttu voru Jakob Ingi Stefánsson og Jón Ómar Gíslason markahæstir með fimm mörk hvor og Magnús Gunnar Karlsson varði tíu skot í markinu og var þannig með 38,5 prósent markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert