„Þjóðverjarnir sem dæmi fá vel borgað frá þýska handknattleikssambandinu fyrir að taka þátt á þessum stórmótum,“ sagði handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Sigfús Sigurðsson í Dagmálum.
Sigfús, sem er 49 ára gamall, er af mörgum talinn einn besti línumaður sem Ísland hefur átt en hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Leikmenn íslenska liðsins fá ekki krónu fyrir það að spila fyrir landsliðið, ólíkt því sem tíðkast í löndunum í kringum okkur og hjá öðrum handboltaþjóðum.
„Við fengum klapp á bakið fyrir að koma heim með silfurverðlaun af Ólympíuleikunum á meðan Pólverjarnir, sem enduðu í fjórða eða fimmta sæti, fengu nokkrar milljónir á mann,“ sagði Sigfús.
„Það er ekki hægt að bera þetta saman. Það eru ekki miklir peningar settir í þetta hérna heima sem er synd og skömm. Það sem hefur fleytt okkur lengst er það að þú ert tilbúinn að gera meira fyrir besta vin þinn en einhvern kunningja úr öðru liði.
Þegar hin liðin voru að spyrja okkur, hvað við fengum fyrir að komast í milliriðla til dæmis, og við sögðum ekkert, þá spurðu þeir okkur hvort við værum geðveikir. Við myndum aldrei gera þetta án þess að fá borgað sögðu þeir við okkur. Þá truflaði þetta mig ekki en eftir á já.
Strákarnir sem eru að koma upp núna eiga að fá sína umbun. Það er kjánalegt að vera með landslið í heimsklassa sem tekur þátt í öllum stórmótum og að það sé ekki hægt að umbuna mönnum fyrir það,“ sagði Sigfús meðal annars.
Viðtalið við Sigfús í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.