FH og Stjarnan skildu jöfn, 29:29, þegar liðin áttust við í 15. Umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.
FH er áfram á toppi deildarinnar, nú með 23 stig, og Stjarnan er í sjöunda sæti með 14 stig.
Gífurlegt jafnræði var með liðunum nánast allan leikinn. Staðan var 14:15, Stjörnunni í vil, í hálfleik.
Um miðjan síðari hálfleik náði FH að slíta sig frá nágrönnunum er liðið komst í 24:20. Stjarnan gafst hins vegar ekki upp, náði að jafna metin þegar 40 sekúndur voru eftir og síðasta sókn FH fór forgörðum.
Jóhannes Berg Andrason var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir FH.
Hans Jörgen Ólafsson og Benedikt Marinó Herdísarson voru markahæstir hjá Stjörnunni með sex mörk hvor.