Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Evrópubikarmeistara Vals í handknattleik karla var ánægður með sjö marka sigur sinna manna á Íslandsmeisturum FH í kvöld.
Spurður út í leikinn sagði Óskar Bjarni þetta:
„Mér fannst við byrja brösulega varnarlega í upphafi og erfitt að brjóta upp vörnina hjá þeim. Síðan koma Andri og Þorvaldur ferskir inn í fyrri hálfleik og mér fannst það svolítið breyta leiknum.
Við náðum að hlaupa aðeins meira og þreyta þá. Þeir voru að koma úr 80 mínútna mjög erfiðan leik og það hefur auðvitað sitt að segja. Það tekur samt ekkert af okkar leik sem var mjög góður og margir leikmenn sem lögðu sitt af mörkum í kvöld.“
Hvað ertu ánægðastur með í leik Vals í kvöld?
„Við erum búnir að spila tvo leiki í röð án okkar besta sóknarmanns, Magnúsar Óla og vinna. Það er sterkt. Mér finnst sterkt að við komum hér í kvöld með alvöru frammistöðu. Við erum dálítið undir radar finnst mér því við viljum vera í toppbaráttunni. En aðalega erum við búnir að vera duglegir í að vinna í þessum litlu hlutum eins og baráttu, orku og fríköstum. Það er allt að koma.“
Ég ræddi við Gaupa fyrir leik og hann hafði orð á því að hann grunaði að Valsmenn ættu eftir að koma aftan að öðrum liðum hér á lokasprettinum og taldi ykkur eiga helling inni. Ertu sammála því?
„Ég held það séu 5-6 lið sem eru mjög góð. Við byrjuðum tímabilið mjög illa og eigum auðvitað fullt inni. Ef við höldum þessu áfram þá er aldrei að vita. En þetta snýst bara um hverjir verða heilir og hvernig orkan og sjálfstraustið er.
Mér finnst eins og margir hafi ekki mikla trú á okkur eftir hvernig við byrjuðum en það er okkar að sanna það að við séum þess verðugir að vera í toppbaráttunni.“
Ísak kemur aftur inn í liðið í kvöld eftir meiðsli og spilar mínútur. Hvernig er framhaldið hjá leikmannahópi Vals. Eru allir að verða heilir?
„Já ég held það. Það er smá hnjask hér og þar. Annars erum við ágætir. Magnús Óli eignaðist tvíbura í dag og við óskum honum innilega til hamingju með tvær yndislegar stelpur. Annars eru allir bara að verða klárir.“
Næsti leikur er gegn ÍR á laugardag. Valsmenn ætla sér væntanlega sigur þar ekki satt?
„Jú ég held það sé líka enn sterkara að við unnum í kvöld og eigum möguleika á einhverju góðu sæti þá verður sá leikur enn skemmtilegri í ljósi þess að þeir eru að berjast fyrir lífi sínu og eru góðir á sama tíma og við þurfum að safna stigum til að stimpla okkur inn í toppbaráttuna,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.