FH er deildarmeistari karla í handbolta annað árið í röð eftir sigur á ÍR í lokaumferð úrvalsdeildar karla í handbolta í kvöld í Kaplakrika í kvöld, 33:29.
ÍR heldur sæti sínu þrátt fyrir ósigurinn og endar í 10. sæti en Grótta tapaði fyrir Aftureldingu og fer þar með í umspil um áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni..
ÍR byrjaði leikinn vel í kvöld og komst 3:1 yfir í leiknum. Þá stoppuðu FH-ingar hugmyndir ÍR-inga um að skemma fyrir þeim deildarmeistaratitilinn og tóku öll völd á vellinum.
FH jafnaði leikinn í stöðunni 4:4 og fóru síðan að byggja upp gott forskot fyrir hálfleikinn. Þegar rúmlega 15 mínútur voru búnar af leiknum var staðan orðin 12:6 fyrir FH.
Svarthvítu risarnir voru langt frá því að vera hættir í fyrri hálfleik. Þeir náðu 9 marka forskoti í stöðunni 19:10. Ásbjörn Friðriksson eða Fógetinn eins og hann er kallaður í Kaplakrika fiskaði síðan víti þegar leiktíminn í fyrri hálfleik var að klárast. Gat hann með marki aukið muninn í 10 mörk fyrir hálfleik en það tókst ekki og varði Ólafur Rafn Gíslason vítið.
Staðan í hálfleik 19:10 fyrir FH.
Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði 4 mörk fyrir FH í fyrri hálfleik og varði Daníel Freyr Andrésson 9 skot.
Bernard Kristján Owusu Darkoh skoraði 4 mörk fyrir ÍR og varði Ólafur Rafn Gíslason 3 skot, þar af eitt víti fyrir ÍR í fyrri hálfleik.
FH tókst að komast 10 mörkum yfir í fyrst sókn sinni í seinni hálfleik. Það sættu ÍR-ingar sig ekki við, breyttu um varnarafbrigði og fóru í þá vegferð að minnka muninn.
Þegar 7 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn kominn niður í 6 mörk i stöðunni 22:16 fyrir FH. Þá tók Sigursteinn Arndal þjálfari FH leikhlé og lét sína menn heyra það enda mikið undir.
FH náði aftur vopnum sínum og náði 8 marka forskoti í stöðunni 25:17 með marki frá Ásbirni Friðrikssyni. FH náði síðan aftur 10 marka forskoti í stöðunni 31:21.
Sigursteinn Arndal fór eftir þetta að rótera liði sínu mikið og leyfa fleirum að fá mínútur í leiknum. Þetta notfærði lið ÍR sér og þegar 6 mínútur voru til leiksloka var staðan 32:27 fyrir FH og munurinn aðeins 5 mörk.
ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn meira en komust ekki neðar en 4 mörk og fór svo að FH vann að lokum 33:29 og eru deildarmeistarar annað árið í röð.
Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði 7 mörk fyrir FH og Daníel Freyr Andrésson varði 13 skot, þar af eitt víti. Birkir Fannar Bragason varði 2 skot.
Baldur Fritz Bjarnason skoraði tíu mörk fyrir ÍR og Bernard Kristján Owusu Darkoh skoraði níu. Varði Ólafur Rafn Gíslason 7 skot í markinu, þar af eitt vítaskot.
Til hamingju með deildarmeistaratitilinn FH-ingar.