Hestaferðir nærandi fyrir knapa og hesta

„Það sem gerir íslenska hestinn svo stórkostlegan er þessi vilji …
„Það sem gerir íslenska hestinn svo stórkostlegan er þessi vilji og frelsið sem býr innra með honum. Þeir fá að vera frjálsir, þeir fá frí og eru ekki í húsi tólf mánuði ársins. Þeir vilja fá að vera frjálsir og hlaupa í náttúrinni með okkur,“ segir Svandís Dóra. Ljósmynd/Aðsend

Leikkonan Svandís Dóra Einarsdóttir ætti að vera kunn flestum landsmönnum en hún vakti verðskuldaða athygli á síðasta ári fyrir frammistöðu sína í sjónvarpsþáttunum Aftureldingu á RÚV þar sem hún fór með hlutverk Brynju.

Þegar hún er ekki á fullu að leika handboltahetjur í tilvistarkreppu þá er Svandís Dóra á hestbaki og er blaðamaður talaði við hana var hún nýkomin úr stórkostlegri fjögurra daga hestaferð.

„Við riðum Hópið 15 konur saman með hinum frábæra Hauki úr Vatnsdal. Veðrið var æðislegt og það var stoppað á söguslóðum. Þetta var alveg sturlað að fara þetta, algjörlega magnað og skylduferð,“ segir Svandís Dóra.

Á sumrin er hún með hestana sína austur í Gnúpverjahreppi og reynir að eyða öllum stundum þar á milli vinnutarna. Hún segir fátt betra en að eyða sumrunum á hestbaki í íslenskri náttúru og er hún núna að undirbúa tveggja vikna hestaferð með vinahópnum norður Kjöl og suður Arnarvatnsheiðina.

„Ég reyni alltaf að fara í eina stóra hestaferð á ári og einhverja styttri. Ég eyði sumarfríinu bara uppi á fjöllum. Við tökum krakkana með að hluta til í stóru ferðina. Þetta er alveg svona fjölskyldusport en ég er með einn fjögurra ára sem ríður með mér út á veturna í taumi og elskar að sofa í fjallaskálum.“

„Það er nauðsynlegt að finna kjarnann sinn, sérstaklega þegar maður …
„Það er nauðsynlegt að finna kjarnann sinn, sérstaklega þegar maður vinnur við að leika aðra persónu. Þetta er mitt sem ég sæki í til að hvíla hugann,“ segir Svandís Dóra. Ljósmynd/Aðsend

Einfalt púsluspil

Svandís hefur haft nóg fyrir stafni síðustu ár í vinnu. Í júní var hún að ljúka við tökur á nýju efni og er að detta inn í sumarfrí áður en hún undirbýr sig fyrir næsta verkefni.

Hvernig er að púsla hestum og vinnunni saman?

„Vinnan er náttúrlega mjög óregluleg en það hefur samt gengið rosa vel. Ég var að klára tökur sem voru sex dagar vikunnar og ég sleppti þá bara hestunum út í haga. Oft er maður með frídag inn á milli og þá getur maður púslað þessu saman, en í þetta sinn var hvort eð er svo stutt þar til við myndum sleppa svo við gerðum það bara aðeins fyrr. En þetta er mjög auðvelt púsluspil, eins og þegar maður er í leikhúsinu þá er maður bara búinn klukkan fjögur eins og venjulegan vinnudag.“

Svandís segir hestamennskuna gefandi og núllstillandi á móti hröðu vinnuumhverfi.

„Í hesthúsinu hleð ég mig og næri andann sem er svo nauðsynlegt og sæki ég það inn á milli í hesthúsinu eða í sveitinni. Það er nauðsynlegt að finna kjarnann sinn, sérstaklega þegar maður vinnur við að leika aðra persónu. Þetta er mitt sem ég sæki í til að hvíla hugann.“

Þar að auki segist hún lánsöm að geta stundað hestamennsku með fjölskyldunni sinni en fjögurra ára stráknum hennar finnst fátt skemmtilegra en að vera upp í hesthúsi.

„Hann er algjör dýrakarl og elskar að vera uppi í sveit eða í hesthúsinu. Þannig að inn á milli verkefna erum við mjög mikið í sveitinni. Það er mjög ánægjulegt að geta gert þetta með fjölskyldunni.“

Þekkir ekkert annað

Hefur þú verið lengi í hestum?

„Já bara síðan ég var í maganum á mömmu,“ segir hún og hlær. „Ég bara gat ekki byrjað fyrr.“

Foreldrar Svandísar Dóru eru Einar Bollason og Sigrún Ingólfsdóttir en þau stofnuðu ferðaþjónustufyrirtækið Íshesta.

„Mamma og pabbi voru búin að stofna Íshesta ári áður en ég fæðist þannig að ég þekki ekkert annað. Ég var bara skríðandi í flórnum og dröslað út um allt í allar hestaferðir. Svo fer ég að keppa í hestum af fullum krafti. Síðan var það bara stóra ákvörðunin; að fara á Hóla eða fara í leiklistarskólann? Ég ákvað að fara í leiklistarskólann og síðan hef ég bara stundað hestamennsku mér til skemmtunar.“

Á námsárunum vann Svandís Dóra sem leiðsögumaður hjá Íshestum á sumrin og þekkir Ísland eins og lófann á sér.

„Ég er búin að fara í mjög margar hestaferðir um allt land sem leiðsögumaður en í dag geri ég þetta bara til gamans, sem áhugamál. Mér finnst fátt skemmtilegra en að vera á fjöllum með góðum hrossum og mönnum.“

Svandís Dóra segir fátt betra fyrir sálina en að vera …
Svandís Dóra segir fátt betra fyrir sálina en að vera í engu netsambandi uppi á hálendi á góðum hesti í félagsskap nánustu vina sinna og fjölskyldu. Ljósmynd/Aðsend

Georg Bjarnfreðarson á fjöllum

Áttu einhverja eftirminnilega ferð sem leiðsögumaður?

„Það var ferð sem við fórum fyrir austan, þá upp úr Jökulsárdalnum, með alveg ótrúlega skemmtilegum, ungum og hraustum hestastelpum frá Þýskalandi og Svíþjóð. Nema það var einn karl sem kom með konu sinni og var hann eins og þýska útgáfan af Georg Bjarnfreðarsyni.

Við skiptumst á að tala við karlinn og aðskilja hann frá hinum. Við vorum föst með honum í viku í fjallaskála einhvers staðar lengst fyrir austan. Svo gat konan hans ekkert farið á hestbak. Maðurinn hennar heimtaði að hún færi út að ríða en við sáum fljótt að hún gat ekkert, var búin að detta tvisvar svo hún fékk bara að vera með trússunum og við bjuggum bara til sérdagskrá fyrir hana. Þegar hún kvaddi okkur þá grét hún og faðmaði okkur og hef ég aldrei séð eins glaða konu eftir eina ferð. Ég held reyndar að hún hafi verið ánægðust með að vera laus við karlinn út daginn,“ segir hún og hlær.

„Maður hittir mjög eftirminnilega karaktera í þessum hestaferðum en það var sérstaklega eftirminnilegt að vera föst á fjöllum með þýskum Georg Bjarnfreðarsyni.“

Hvert svæði hefur sinn kost

Svandís Dóra segir þó að allar hennar hestaferðir um landið séu eftirminnilegar á einhvern hátt enda náttúran einstök og félagsskapurinn ekki síðri. Hestaferðirnar á Austurlandi hafa allar verið magnaðar enda landsvæðið hrátt og villt.

Spurð hvort hún eigi sitt uppáhaldssvæði kveðst hún ekki geta gert upp á milli landshluta.

„En það er eitthvað þegar maður kemur upp á hálendið, eins og á Fjallabak, Landmannalaugar og Kjöl sem eru öll stórkostleg svæði. Áður fyrr var símasamband takmarkað uppi á hálendi sem var aukið frelsi. Við ætlum að gera það í tveggja vikna hestaferðinni í sumar, bara slökkva á netinu. Við ætlum ekki að vera í neinu netsambandi og fara ekkert inn á einhverja miðla, ekkert hægt að ná í mann nema þeir nánustu. Það er svolítið það sem ég sæki í, að fá tengingu við náttúruna og eitthvað ósnortið.“

Klukkan hverfur

Hvað er það sem gerir hálendið svona einstakt?

„Þeir sem þekkja það þekkja það,“ segir Svandís en bætir við að orkan á fjöllum sé öðruvísi en í siðmenningunni. Klukkan tifar hægar og ró leggst yfir líkamann.

„Þetta er annar hraði, það tekur oft einn eða tvo daga að lenda í ferðum. Svo er fyrsti dagurinn alltaf hraður, maður er að koma úr borginni og vinnunni. En svo hægir á hraðanum, sem er svo einstakt, því siðmenningin fer svo hratt.“

Hún segir hestaferðirnar stjórnast af klukku hestanna og þeirra vellíðan.

„Maður hugsar bara eitt, tvö og þrjú að hrossunum líði vel og þau séu í toppstandi og passar að hafa ekki of langar dagleiðir og þeim líði vel. Svo fer maður bara í eitthvert flæði.“

Ekki síður mikilvægt fyrir hesta

Að sögn Svandísar er toppurinn á hestaferðunum einstakt geðslag íslenska hestsins og hestaferðirnar séu ekki síður nærandi fyrir hestinn en knapann.

„Það sem gerir íslenska hestinn svo stórkostlegan er þessi vilji og frelsið sem býr innra með honum. Þeir fá að vera frjálsir, þeir fá frí og eru ekki á húsi tólf mánuði ársins. Þeir vilja fá að vera frjálsir og hlaupa í náttúrunni með okkur.“

Hún segir hestaferðirnar uppskeruhátíð fyrir knapa og hesta eftir vetrarþjálfun.

„Á veturna þjálfar maður hrossin af bestu getu og svo er maður bara að leika sér á sumrin. Þetta er nauðsynlegt fyrir hrossin, að fá að leika sér, og er svo góð þjálfun fyrir þá. Þegar ég var að keppa tók ég alltaf keppnishrossin mín í einhverja ferð, auðvitað passaði maður sig þegar það var korter í mót en ég hef bara mikla trú á því að þetta sé gott fyrir hestinn. Þetta heldur honum glöðum, viljugum og sterkum. Fyrir mér er þetta svo mikilvægt og við megum alls ekki glata þessu. Það er bara nauðsynlegt eftir vetrardvölina að komast upp á fjöll,“ segir Svandís Dóra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert