Leikar hafnir á Landsmóti hestamanna

Landsmót Hestamanna í Víðidal er hafið.
Landsmót Hestamanna í Víðidal er hafið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsmót hestamanna hófst í morgun á svæði Fáks í Víðidalnum. Mótið er nú haldið í Reykjavík í fjórða sinn en áður hafa þar verið haldin mót árin 2000, 2012 og 2018.

Dagskrá hófst á keppnisvellinum klukkan 8.30 með forkeppni í barnaflokki gæðinga og stendur yfir fram á hádegi. Síðan mun forkeppni í b-flokki fullorðna og ungmenna standa yfir fram á kvöld.

Hryssur til dóms í dag

Á kynbótavellinum hófst dagskrá klukkan átta í morgun með dómum kynbótahrossa. Yfir fimmtíu hryssur koma til dóms í dag í flokkum fjögurra, fimm og sex vetra. Dómar muna standa yfir fram á kvöld.

Nokkrar eftirtektarverðar hryssur mæta til dóms í dag. Þar með talið fimm vetra heimsmethafinn Arney frá Ytra-Álandi sem gerði garðinn frægan fyrir norðan og fékk hvorki meira né minna en 8,98 í aðaleinkunn á kynbótasýningu á Hólum í Hjaltadal.

Þetta er bara snefill af þeim gæðingum sem verða til sýnis á Landsmóti hestamanna í dag og mega gestir vænta algjöra gæðingaveislu bæði á kynbóta- og keppnisvellinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert