Charlotte Dujardin, þrefaldur ólympíumeistari í hestaíþróttum, hefur verið dæmd í árs langt keppnisbann fyrir dýraníð eftir að myndband af Dujardin að slá hest í fæturna ítrekað með písk komst í fréttir.
Þá er henni einnig gert að greiða rúmlega eina og hálfa milljón króna í sekt.
Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.
Dujardin keppir í dressage, eins konar dansfimi á hesti, en hún stefndi á fjórðu gullverðlaun sín á leikunum í París í sumar.
Good Morning Britain, morgunþáttur á sjónvarpsstöðinni ITV, birti myndband af Dujardin láta höggin dynja á hesti en myndbandið er fjögurra ára gamalt. Barsmíðarnar áttu sér stað í hesthúsi Dujardin.
Alþjóðahestaíþróttasambandið (FEI) segir að þeim hafi borist myndskeiðið frá lögfræðingi 22. júlí.
FEI setti Dujardin í tímabundið keppnisbann 23. júlí og mun banninu ljúka 23. júlí á næsta ári.
„Þessi refsing sendir skýr skilaboð um að hver sá sem sýnir af sér háttsemi sem er skaðleg fyrir velferð hesta, óháð því hver á í hlut, mun þurfa að takast á við alvarlegar afleiðingar. Við teljum að þessi niðurstaða árétti skuldbindingu FEI til velferðar hesta og hlutverks þess sem verndari samstarfsaðila okkar í hestamálum,“ segir í tilkynningu.