Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi unnu góðan sigur á Póllandi, 35:28, í A-riðli HM 2025 í handbolta karla í Herning í Danmörku í kvöld.
Þjóðverjar voru einu marki yfir, 15:14, að loknum fyrri hálfleik sem var afskaplega jafn.
Áfram var jafnræði með liðunum í upphafi síðari hálfleiks en þegar leið á hann hóf Þýskaland að slíta sig frá Póllandi og vann að lokum nokkuð þægilegan sjö marka sigur.
Renars Uscins fór á kostum hjá Þýskalandi og skoraði tíu mörk. Johannes Golla bætti við sex mörkum og Juri Knorr skoraði fimm.
Ariel Pietrasik var markahæstur hjá Póllandi með sjö mörk og Kamili Syprzak var skammt undan með sex mörk.