Dika Mem, einn besti handboltamaður heims, hefur fengið grænt ljós frá félagi sínu, Barcelona, til að leika með Frökkum á heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku.
Mem hefur verið frá keppni vegna meiðsla en er í 22 manna hópi sem Guillaume Gille landsliðsþjálfari valdi til æfinga rétt fyrir jól og liðið kom saman á fimmtudaginn.
Tvísýnt hefur verið um fimm leikmenn í franska hópnum, þar á meðal Mem, Elohim Prandi og Kentin Mahé.
Frakkar taka þátt í þriggja liða alþjóðlegu móti á heimavelli í Strasbourg til undirbúnings fyrir HM en þar mæta þeir Tékkum á miðvikudaginn og Portúgölum á föstudaginn.
Frakkar eru síðan í C-riðli með Katar, Kúveit og Austurríki á HM og mæta líkast til Ungverjalandi, Hollandi og Norður-Makedóníu í milliriðli.