Óvíst er með þátttöku Arons Pálmarssonar, fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, á heimsmeistaramótinu sem hefst í Króatíu, Danmörku og Noregi þann 14. janúar.
Þetta tilkynnti Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í Víkinni í Fossvogi í dag.
Aron er að glíma við meiðsli í kálfa og er óvíst hvenær hann verður klár í slaginn en Ómar Ingi Magnússon verður einnig fjarri góðu gamni á mótinu vegna ökklameiðsla.
„Eins og staðan er í dag erum við að púsla liðinu saman án Ómars Inga Magnússonar og Arons Pálmarssonar,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.
„Aron hefur ekkert æft með okkur og eins og staðan er í dag þá spilar hann ekki fyrr en í milliriðli á HM. Það er áfall þegar lykilmenn meiðast og það að Ómar Ingi og Aron séu ekki heilir heilsu er ekki beint jákvætt fyrir okkur enda menn sem hafa borið uppi liðið.
Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og það verður gott að fá þessa Svíaleiki. Það eru alls konar hlutir sem við höfum þurft að díla við og aðlaga okkur að,“ sagði Snorri Steinn.