Norðmenn sigruðu Rúmena mjög örugglega, 37:25, á alþjóðlegu móti í handknattleik karla á Spáni í kvöld.
Þar með tryggðu þeir sér sigur í sínum riðli á mótinu, eftir að hafa sigrað Egypta, 33:29, í fyrsta leiknum, og mæta líklega Spánverjum í úrslitaleiknum á laugardagskvöldið.
Magnus Søndenå, Mario Matic, Kent Robin Tønnesen, William Aar og August Pedersen skoruðu fimm mörk hver fyrir norska liðið í kvöld.
Norðmenn eru ein af þremur gestgjafaþjóðum heimsmeistaramótsins sem hefst á þriðjudag og þeir mæta Brasilíu í sínum fyrsta leik á miðvikudagskvöldið kemur. Portúgal og Bandaríkin eru einnig með þeim í E-riðli keppninnar.