Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króatíu í handbolta, var allt annað en sáttur með sitt lið eftir sigur á Norður-Makedóníu í vináttuleik í Varazdin í Króatíu í gærkvöldi.
Urðu lokatölur 27:25 og voru Norður-Makedóníumenn yfir í hálfleik, 14:13. Þrátt fyrir sigurinn var Dagur ósáttur við spilamennsku síns liðs.
„Vörnin var hræðileg í fyrri hálfleik og skotin fyrir utan enn verri. Við gerðum of mörg mistök og það var mjög mikið að. Við vorum betri í seinni hálfleik en við verðum að verjast betur,“ sagði Dagur við 24 Sata í Króatíu.
Dagur og hans lið munu að öllum líkindum mæta Íslandi í milliriðli á HM, sem hefst eftir helgi. Til þess þarf íslenska liðið og það króatíska að enda í einu af þremur efstu sætum síns riðils en annað væri stórslys hjá báðum liðum.
Króatar verða á heimavelli því riðlar Íslands og Króatíu verða leiknir í Zagreb.