Arnar Freyr Arnarsson, línumaður karlalandsliðsins í handbolta, fór meiddur af velli eftir 42 mínútna leik gegn Svíum í Kristianstad í kvöld.
Arnar bað um skiptingu og haltraði af velli en hann stakk við fæti eftir að hafa skorað sitt fjórða mark í leiknum og jafnað metin í 23:23.
Ekki er ljóst hvort um alvarleg meiðsli sé að ræða en hafi hann tognað í læri eins og ráða mátti af sjónvarpsútsendingunni er hætt við að hann missi af heimsmeistaramótinu.
Íslenska liðið er því búið að missa tvo línumenn af velli í leiknum en Elliði Snær Viðarsson, sem er fyrirliði í vináttulandsleiknum í kvöld, fékk rauða spjaldið á 20. mínútu leiksins.