Mikill heiður að vera valinn

Orri Freyr Þorkelsson.
Orri Freyr Þorkelsson. mbl.is/Arnþór

Orri Freyr Þorkelsson, vinstri hornamaður íslenska landsliðsins í handknattleik, er fullur eftirvæntingar fyrir sínu öðru stórmóti með liðinu á ferlinum.

Ísland tekur þátt á HM 2025 og leikur þar í G-riðli í Zagreb í Króatíu ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum. Liðið mætir Svíþjóð í vináttulandsleik í Kristianstad klukkan 18 í kvöld.

„Tilfinningin er mjög góð. Við erum búnir að æfa mjög vel. Menn eru bara búnir að vera hérna á fullu gasi. Mér hefur allavega fundist hafa gengið vel á æfingunum.

Gott tempó og skemmtilegt að koma saman. Ég er mjög spenntur fyrir komandi verkefni,“ sagði Orri Freyr í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska liðsins í Víkinni á þriðjudag.

Gaman að koma aftur inn í þetta

Hann sagði markmiðin skýr hjá liðinu fyrir mótið:

„Við ætlum okkur að vinna riðilinn. Það er okkar markmið og svo sjáum við bara hvað kemur í framhaldinu af því.“

Orri Freyr hefur undanfarin ár verið inn og út úr landsliðinu og tók þátt á sínu fyrsta og eina stórmóti til þessa með því á EM 2022 í Ungverjalandi. Á síðasta ári tók hann hins vegar reglulega þátt í landsliðsverkefnum og virðist búinn að festa sig í sessi í hópnum.

„Það er alltaf mikill heiður að koma hingað. Ég reyni að sjálfsögðu alltaf að gera mitt besta þegar ég spila með mínu félagsliði og síðan hef ég verið valinn í síðustu verkefni hjá landsliðinu.

Það er mikill heiður og ég hef reynt að gera mitt besta. Það hefur verið gaman að koma aftur inn í þetta. Mér finnst hópurinn rosalega flottur þannig að ég geri mitt besta og kem með það sem ég hef upp á að bjóða,“ sagði Orri Freyr.

Mjög ánægður hjá Sporting

Hann hefur farið mikinn með Sporting, sem hefur leikið frábærlega í Meistaradeild Evrópu og portúgölsku deildinni, á yfirstandandi tímabili.

„Deildin er áhugaverð og svipuð öðrum deildum. Það eru nokkur lið sem eru mjög sterk, þrjú stóru; Sporting, Benfica, Porto. Það er svolítill bardagi þar á milli og svo eru hin liðin kannski ekki alveg í sama styrkleika.

En þrátt fyrir það eru flott lið í deildinni. Mér finnst hún skemmtileg og finnst fínt að spila þar,“ sagði Orri Freyr um portúgölsku deildina og kvaðst mjög ánægður hjá Sporting.

„Ég framlengdi við þá núna í desember þannig að ég er mjög ánægður í Sporting. Það kom ekkert annað til greina en að vera þar til 2027 eins og ég skrifaði undir samning um.

Ég er hrikalega ánægður þar og held að það hafi verið gott skref að framlengja þann samning,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert