David Mandic, einn af lykilmönnum króatíska karlalandsliðsins í handbolta, meiddist í sigri liðsins á Slóveníu í gærkvöldi og gæti misst af HM sem hefst innan skamms.
Króatía, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, er einn þriggja gestgjafa á mótinu en íslenska landsliðið leikur einmitt í Zagreb.
Mandic meiddist á kálfa í gær og samkvæmt króatíska miðlinum gol eru meiðslin talin alvarleg.
Þá gæti farið svo að hann missi af HM, sem er einnig haldið í Danmörku og Noregi, en Króatar hefja leik gegn Barein 15. janúar næstkomandi.
Mandic, sem er 27 ára gamall, leikur með Melsungen, toppliði þýsku deildarinnar, en þar eru einnig landsliðsmennirnir Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson.