Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik, var áhyggjufullur eftir vináttuleiki liðsins gegn Brasilíu sem fram fóru á dögunum.
Leikirnir voru hluti af undirbúningi þýska liðsins fyrir heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi sem hefst á morgun en leikjunum tveimur lauk með sigri þýska liðsins, 32:25 í Flensburg, og 28:26 í Hamburg.
Þjóðverjar þóttu ekkert sérstaklega sannfærandi í leikjunum tveimur, sérstaklega í síðari leiknum í Hamburg þegar Brasilía var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13.
„Ég bjóst við því að við myndum spila betur í þessum leikjum,“ sagði Alfreð á blaðamannafundi eftir síðari leikinn í Hamburg.
„Við æfðum vel í aðdraganda leikjanna og æfingarnar gengu vel. Ég hef áhyggjur af þessu,“ bætti landsliðsþjálfari Þýskalands við.
Þjóðverjar leika í A-riðli HM ásamt Tékklandi, Póllandi og Sviss og verður riðill þýska liðsins leikinn í Herning í Danmörku.