Heimsmeistarar Danmerkur og Austurríki byrjuðu HM 2025 í handknattleik karla á öruggum sigrum í kvöld. Danmörk lagði Alsír 47:22 í B-riðli á heimavelli í Herning og Austurríki vann Kúveit 37:26 í C-riðli í Porec í Króatíu.
Staðan í hálfleik hjá Danmörku og Alsír var 20:11, og var eftirleikurinn því auðveldur fyrir heimsmeistarana í síðari hálfleik. Niðurstaðan að lokum 25 marka sigur.
Mathias Gidsel skoraði tíu mörk fyrir Danmörku. Emil Jakobsen bætti við átta mörkum og Simon Pytlick skoraði sjö.
Ayoub Abdi var markahæstur hjá Alsír með sexmörk.
Austurríki lenti í töluverðum vandræðum með Kúveit í fyrri hálfleik enda munurinn aðeins tvö mörk, 18:16, í hálfleik.
Austurríkismenn hertu hins vegar tökin í síðari hálfleik og unnu að lokum þægilegan 11 marka sigur.
Sebastian Frimmel, Boris Zivkovic, Eric Damböck og Tobias Wagner voru markahæstir hjá Austurríki, allir með fimm mörk.
Markahæstir hjá Kúveit voru Mohammed Radhei, Mohamed Al-Hendal og Saif Al-Dawandi með fjögur mörk hvor.