Þjálfarinn yfirheyrði Hafstein um íslenska liðið

Hafsteinn Óli Ramos í leik með Gróttu í vetur.
Hafsteinn Óli Ramos í leik með Gróttu í vetur. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég átti að fara heim á morgun, 15. janúar, en það breyttist, ég þurfti að framlengja og maður tekur því bara fagnandi,“ sagði Hafsteinn Óli Ramos Rocha í samtali við mbl.is í dag.

Hafsteinn Óli, sem er 24 ára gamall, verður í leikmannahópi Grænhöfðaeyja á heimsmeistaramótinu í Króatíu, Danmörku og Noregi sem hófst í dag. Hann var í 18-manna æfingahópi liðsins fyrir mótið en var ekki valinn í 16-manna lokahópinn. Hann var hins vegar kallaður inn í hópinn í gær eins og áður sagði vegna meiðsla í hópnum.

Endurnýjun í landsliðinu

Hann er fæddur og uppalinn á Íslandi en móðir hans er íslensk og faðir hans er frá Grænhöfðaeyjum.

„Um síðustu jól spurði pabbi mig hvort ég hefði áhuga á því að spila fyrir Grænhöfðaeyjar. Margir af lykilmönnum liðsins eru komnir yfir þrítugt og því eru margir þeirra að taka þátt á sínu síðasta stórmóti.

Það er ákveðin endurnýjun að fara eiga sér stað og ég tók þessu tilboði pabba því fagnandi. Ég fór með þeim á mót í Kúveit og það gekk vel. Ég komst ekki í lokahópinn en var svo kallaður inn þegar einn af leikmönnum liðsins puttabrotnaði,“ sagði Hafsteinn Óli.

Reynslumiklir landsliðsmenn

Grænhöfðaeyjar leika í G-riðli keppninnar í Zagreb, ásamt Íslandi, Slóveníu og Kúbu.

„Markmiðið er að fara eins langt og mögulegt er og við förum í alla leiki til þess að vinna þá. Við teljum okkur geta unnið hvaða lið sem er, annars væri ekkert vit í þessu. Markmiðið er að komast áfram í milliriðla. Ég geri ráð fyrir því að leikur Íslands og Slóveníu verði úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins og við erum að stilla leiknum gegn Kúbu upp þannig líka, sem úrslitaleik um sæti í milliriðli.

Það eru margir góðir handboltamenn í liði Grænhöfðaeyja. Þetta eru leikmenn sem hafa spilað í hæsta gæðaflokki í Evrópu en eru í dag komnir á seinni hluta ferilsins. Margir þeirra eru búnir að vera í landsliðinu í yfir tíu ár og reynslan er því mikil. Við erum með þrjá leikmenn í Frakklandi, einn á Spáni og svo tvo í Portúgal þannig að þessir menn kunna alveg handbolta.“

Fara vel yfir íslenska liðið

Hafsteinn Óli leikur með Gróttu hér á landi en hefur landsliðsþjálfari Grænhöfðaeyja eitthvað spurt hann út í íslenska liðið sem Grænhöfðaeyjar mæta í fyrsta leik sínum á mótinu á fimmtudaginn kemur í Zagreb?

„Já hann hefur aðeins verið að yfirheyra mig um íslenska liðið. Hann er þá aðallega að spyrja mig um það hvernig þeir spila og hann er auðvitað sjálfur búinn að horfa á einhverjar myndbandsklippur af þeim.

Ég er búinn að benda honum á eitt og annað sem gæti hjálpað okkur og svo eru tveir myndbandsfundir framundan þar sem við munum fara betur yfir íslenska liðið. Hann sér klárlega einhverja möguleika gegn þeim og veikleika í íslenska liðinu. Ég stjórna þessu ekki á bakvið tjöldin,“ bætti Hafsteinn Óli við í léttum tón í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert