Rasmus Lauge, einn af lykilmönnum ríkjandi heimsmeistara Danmerkur í handknattleik, meiddist í stórsigri á Alsír, 47:22, í B-riðli HM 2025 í gærkvöldi.
Lauge meiddist á kvið og sagði við fréttamenn eftir leik að hann byggist við því að um smávægilega tognun væri að ræða.
„Ég hreyfði mig heimskulega í vörninni þar sem ég tognaði smávægilega á kvið nálægt rifbeinunum. Ég ákvað að fara af velli, setjast niður og finna út hvað væri í gangi.
Ég veit ekki hvað þetta er en við förum á hótelið og rannsökum. Líklega er þetta smávægileg tognun. Þetta er helvíti pirrandi satt að segja.
Mér finnst þetta svolítið pirrandi þegar allt gengur vel og allir eru að spila vel og mér líður vel, að það komi svona smávægilegur hlutur upp, það er synd og skömm,“ sagði leikstjórnandinn.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Danmerkur, sagði útlitið ekki gott og að Lauge myndi að öllum líkindum missa af næsta leik í B-riðlinum, gegn Túnis annað kvöld.