Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik sínum í G-riðli heimsmeistaramótsins í Zagreb í kvöld en mótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi.
Íslenska liðið verður án landsliðsfyrirliðans Arons Pálmarssonar í leiknum þar sem að hann er að jafna sig á meiðslum en fjölbreytileiki einkennir skyttur íslenska liðsins.
Aron, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn Veszprém í ungversku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu FH í október á síðasta ári.
Aron lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Belgíu í undankeppni EM árið 2008 en alls á hann að baki 176 landsleiki þar sem hann hefur skorað 674 mörk. Hann var í bronsliði Íslands á EM í Austurríki árið 2010. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fimmtánda stórmót Arons sem jafnframt hefur verið fyrirliði landsliðsins frá árinu 2020.
Elvar Örn, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn Melsungen í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn á Selfossi.
Elvar Örn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2018 en alls á hann að baki 81 landsleik þar sem hann hefur skorað 190 mörk. Hann er á leið á sitt sjöunda stórmót með landsliðinu.
Haukur, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn rúmenska stórliðinu Dinamo Búkarest en hann er uppalinn á Selfossi.
Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2018 gegn Noregi en alls á hann að baki 37 landsleiki þar sem hann hefur skorað 53 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fjórða stórmót Hauks.
Teitur Örn, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Gummersbach í þýsku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið frá Flensburg síðasta sumar.
Teitur var markahæsti leikmaður HM U17-ára í Georgíu árið 2017 þar sem hann skoraði 66 mörk en hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2018. Alls á hann að baki 38 A-landsleiki og 39 mörk en heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fjórða stórmót Teits.
Viggó, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við Erlangen í þýsku 1. deildinni á dögunum en hann er uppalinn hjá Gróttu á Seltjarnarnesi.
Hægriskyttan lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð árið 2019 en alls á hann að baki 61 landsleik þar sem hann hefur skorað 177 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður sjötta stórmót Viggós.
Þorsteinn Leó, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Porto í efstu deild Portúgals en hann er uppalinn hjá Aftureldingu.
Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Ísrael árið 2023 en alls á hann að baki sjö landsleiki þar sem hann hefur skorað 12 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fyrsta stórmót Þorsteins Leós.