Hættur að telja stórmót sonarins

Gústav Jakob Daníelsson og eiginkona hans Guðrún Jóhanna Axelsdóttir.
Gústav Jakob Daníelsson og eiginkona hans Guðrún Jóhanna Axelsdóttir. Eyþór Árnason

„Þetta er annað hvort níunda eða tíunda mótið sem ég fer á,“ sagði Gústav Jakob Daníelsson, faðir landsliðsmannsins Björgvins Páls Gústavssonar, í samtali við mbl.is í miðborg Zagreb í dag.

Gústav er mættur ásamt fjölskyldu að fylgjast með syninum reynslumikla á stærsta sviðinu. „Ég held þetta sé áttunda heimsmeistaramótið hans en ég er hættur að telja,“ sagði hann og hló.

„Þetta er orðið þægilegra núna en það var. Ég er kominn með reynslu eins og sonurinn. Það er ótrúlega gaman að sjá hann spila á stórmótum og maður fyllist af stolti.

Maður sér sömu andlitin ár eftir ár og svo leynast alltaf ný. Þetta er fjölskyldustemning,“ sagði Gústav.

Björgvin er kominn í minna hlutverk í landsliðinu, þar sem hann er varamarkvörður Viktors Gísla Hallgrímssonar. Það gerir stórmótin ekki leiðinlegri.

„Alls ekki. Ef eitthvað er það þægilegra fyrir mig. Ég er minna stressaður. Ég hef samt sama áhugann á handboltanum. Ég fór t.d. á úrslitaleik í Póllandi þegar Dagur varð Evrópumeistari þótt íslensku strákarnir væru löngufarnir heim,“ sagði Gústav.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert