„Ég veit eiginlega ekki neitt. Ég er hérna í óvissuferð,“ sagði Guðbjörg Albertsdóttir, stuðningskona íslenska karlalandsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is í miðborg Zagreb í dag.
Guðbjörg fékk ferð á heimsmeistaramótið í afmælisgjöf en hún fagnar sextugsafmæli sínu um þessar mundir.
„Ég er virkilega sátt við þessa afmælisgjöf. Mér var sagt í gærkvöldi að pakka niður og vakna snemma í morgun. Svo var ég ræst, út í bíl og af stað.
Við náðum í systur mína á leiðinni og svo var hellingur af börnunum okkar klár á flugvellinum og hér erum við. Ég vissi ekkert að við værum á leiðinni hingað og ég veit ekkert hvenær ég fer heim,“ sagði hún hlæjandi.
Hún er vön því að láta vel í sér heyra heima í stofu og fær nú loks að vera með læti í stúkunni.
„Við systurnar erum alltaf kolvitlausar með hljóðum og látum. Það er hugur í okkur. Þetta er fyrsta mótið mitt en ég hef oft ætlað mér að fara.
Þetta leggst vel í okkur. Við látum vel í okkur heyra. Vinkona okkar ætlar að drekka í hvert skipti sem hún heyrir í okkur í sjónvarpinu og við ætlum að vera með læti,“ sagði hún kát.