Toppar ekkert íslenska landsliðið

Bolli Már Bjarnason og Þór Bæring halda uppi stuðinu í …
Bolli Már Bjarnason og Þór Bæring halda uppi stuðinu í Zagreb. mbl.is/Eyþór Árnason

Útvarpsmaðurinn Þór Bæring Ólafsson var í góðu skapi er hann ræddi við mbl.is í miðborg Zagreb í kvöld þegar hann hitaði upp fyrir leik Íslands og Grænhöfðaeyja á HM. Þór er hins vegar ekki aðeins í Zagreb til að skemmta sér.

„Ég er með ferðaskrifstofu og ég er með hóp á þessum leikjum í riðlakeppninni og milliriðlum líka. Svo erum við Bolli hérna að taka upp morgunþáttinn Ísland vaknar á K100.

Við erum með beinar útsendingar frá Zagreb. Við vorum í morgun með beina útsendingu frá Leifsstöð, á morgun, mánudag og þriðjudag er það bein útsending frá Zagreb. Við viljum koma stemningunni heim til fólks í gegnum útvarpið,“ sagði hann.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um fólkið sem mætir til Króatíu og á leikina. Við fylgjum þeim sem eru að styðja íslenska landsliðið. Þetta er magnaður hópur sem er að koma og hvetja liðið áfram. Þetta er magnað fólk!

Bolli og Þór standa vaktina í Ísland vaknar, alla virka …
Bolli og Þór standa vaktina í Ísland vaknar, alla virka morgna á milli 6 og 10. Ljósmynd/K100

Ég hef farið á nokkur mót áður og það er alltaf jafn gaman að upplifa þetta með íslensku þjóðinni, að vera á staðnum og öskra áfram Ísland,“ bætti Þór við.

Það er nóg að gera hjá Þór því hann er útvarpsmaður, íþróttafréttamaður, rekur ferðaskrifstofu og er mikið á ferðinni.

„Fyrst og fremst ákvað ég fyrir löngu að lífið ætti að vera skemmtilegt og ég ætlaði að vera duglegur að sækja skemmtilega viðburði. Ég reyni að gera mitt allra besta til að upplifa sem mest í lífinu. Ég er heppinn hvað ég fæ að upplifa mikið.“

Þór er einn af fáum stuðningsmönnum Leyton Orient á Íslandi og er duglegur að sækja leiki liðsins í Lundúnum. En hvort er betra að mæta á leik með Leyton Orient eða íslenska landsliðinu?

„Þessi er erfið. Ég er á leiðinni á Leyton Orient – Manchester City í bikarnum en það toppar ekkert íslenska landsliðið,“ sagði Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert