Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður Íslands í handbolta, er í mikilli og harðri samkeppni um vinstri hornastöðuna við Orra Frey Þorkelsson.
„Það er bara gott að hafa þessa samkeppni. Ég horfi á það þannig að mig langar ekkert eðlilega mikið að ná árangri með Íslandi á stórmóti. Hvort sem ég þarf að vera uppi í stúku, á bekknum eða inni á vellinum, þá er ég tilbúinn til að gera allt til þess.
Til þess að ná árangri þarf maður að vera liðsmaður. Það er gott að hafa þessa breidd og að geta dreift álaginu. Við erum með fjóra hornamenn sem eru eins og Drakúla, allir á eftir blóði. Við erum allir klárir í þau hlutverk sem við fáum,“ sagði Bjarki við mbl.is.
„Að því sögðu þá er ég í handbolta til að spila og ég vil alltaf vera inni á vellinum. Við erum með gott lið og góða leikmenn. Vonandi förum við sem lengst og þá þurfum við sem flesta til að leggja sitt að mörkum,“ bætti hann við.