Elliði Snær Viðarsson fékk sitt annað rauða spjald í þremur leikjum er honum var vikið af velli í fyrri hálfleik gegn Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik Íslands á HM í handbolta í gærkvöldi.
Eyjamaðurinn fékk einnig rautt spjald í fyrri vináttuleiknum við Svíþjóð í undirbúningi fyrir mótið og er línumaðurinn skiljanlega ekki sáttur.
„Ég hugsaði alveg út í að ég væri að fá tvö rauð á sjö dögum og það er ekki hægt að bjóða upp á það.
Ég brást liðinu með því að fá rautt spjald þegar ég var búinn að vera inn á í fimm mínútur. Ég geri ráð fyrir því að Snorri Steinn sé ósáttur við að ég fái rautt spjald eftir örfáar mínútur,“ sagði Elliði við mbl.is.
Ísland leikur við Kúbu í öðrum leik sínum í riðlinum annað kvöld og með sigri tryggir liðið sér úrslitaleik við Slóveníu um toppsæti riðilsins í lokaumferðinni.
„Ég sá hvernig fyrsti leikurinn þeirra fór. Ég held þetta verði svipað og á móti Grænhöfðaeyjum. Það er okkar leikur sem skiptir máli, hvað við ætlum að gera og komum inn í leikinn. Það er stóra atriðið í þessu.
Við viljum keyra á þá frá byrjun og stýra þessu allan tímann. Við megum ekki detta niður eins og í fyrsta leiknum. Þetta verður góð æfing í því,“ sagði Elliði.