Fjögur lið komust áfram í kvöld

Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja fagnar marki í leiknum gegn Sviss …
Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja fagnar marki í leiknum gegn Sviss í kvöld. AFP/Henning Bagger

Fjögur lið tryggðu sér í kvöld sæti í milliriðlum heimsmeistaramóts karla í handknattleik þegar fjórum leikjum í annarri umferð undanriðlakeppninnar lauk.

Norðmenn unnu stórsigur á Bandaríkjamönnum, 33:17, í E-riðlinum í Bærum í Noregi. Portúgal er með 4 stig, Brasilía 2, Noregur 2 og Bandaríkin ekkert. Norðmenn geta ekki endað í neðsta sæti riðilsins eftir þennan stórsigur og verða því í milliriðli, rétt eins og Portúgalar, þrátt fyrir óvænt tap gegn Brasilíu í fyrstu umferðinni.

Ungverjaland vann auðveldan sigur á Gíneu í D-riðlinum í Varazdin í Króatíu, 35:18. Holland með 4 stig og Ungverjaland með 3 eru komin áfram en Norður-Makedónía með eitt stig og Gínea ekkert berjast um þriðja sætið í lokaumferðinni.

Króatía, undir stjórn Dags Sigurðssonar, hafði yfirburði  gegn Argentínu í H-riðlinum í Zagreb og sigraði, 33:18. Króatía og Egyptaland eru því komin með 4 stig og verða bæði með Íslandi í milliriðli. Argentína og Barein eru án stiga og leika hreinan úrslitaleik um að komast áfram.

Spennuleikur kvöldsins var grannaslagur Sviss og Þýskalands í A-riðlinum í Herning í Danmörku en þar hefur reynst um sannkallaðan „dauðariðil“ að ræða. Liðin voru yfir til skiptis þar til á lokamínútunum að Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, náðu að hrista Svisslendinga af sér og sigruðu 31:29.

Þýskaland er því komið áfram með 4 stig en Tékkland er með 2 stig, Sviss 1 og Pólland 1 og því harður slagur um tvö seinni sætin í milliriðli í lokaumferðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert