„Ég er ánægður með að strákarnir hafi klárað þetta fagmannlega,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta í fjarveru Arons Pálmarssonar, í samtali við mbl.is í dag frá liðshóteli íslenska liðsins í Zagreb.
Ísland vann Grænhöfðaeyjar með sannfærandi hætti, 34:21, í fyrsta leik sínum á HM í króatísku höfuðborginni í gærkvöldi. Elliði fékk sjálfur rautt spjald í fyrri hálfleik.
„Minn leikur var vonbrigði. Mestu vonbrigðin voru þau að þetta var klárt rautt spjald. Það var lélegt hjá mér að bjóða upp á þetta. Það er aðallega það.
Ég fór á bekkinn og sagði að þetta hefði verið beint rautt. Ég gat ekki mótmælt. Ég ætlaði að taka á móti honum en fór með hendurnar beint í andlitið á honum. Þetta var klárt rautt,“ viðurkenndi Elliði.
Það er erfitt að vera einn uppi í stúku og geta ekki hjálpað liðinu.
„Það var tómlegt í gær. Það var sér gæslumaður sem fylgdi mér allan tímann og við vorum saman í þessu. Það er hundleiðinlegt að geta ekki hjálpað liðinu. Á meðan fer maður yfir þetta atriði í höfðinu og vonar að þeir sem eru inni á vellinum geri þetta vel,“ sagði Elliði.