„Það má segja að þetta hafi verið eðlilegt,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, í samtali við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í Zagreb í Króatíu um fyrsta leik Íslands á HM.
Ísland vann sannfærandi sigur á Grænhöfðaeyjum, 34:21, í fyrsta leik á mótinu í gær. Ísland var tíu mörkum yfir í hálfleik og slakaði aðeins á í seinni hálfleik.
„Fyrri hálfleikurinn var frábær hjá okkur en botninn datt aðeins úr þessu í seinni og þetta var ekki eins og við vildum sigla þessu heim, en þetta var þægilegur sigur.
Það er eðlilegt að koma mjög ákveðnir í leikinn og svo kemur kannski smá spennufall í seinni hálfleik. Gott að byrja á sigri og að hann skyldi vera þægilegur,“ sagði Björgvin.