„Drullu öflug frammistaða,“ sagði Sveinn Jóhannsson, línumaður í íslenska landsliðinu í handbolta, eftir sigur liðsins gegn Kúbu, 40:19, á heimsmeistaramótinu í handbolta í kvöld.
„Mér fannst við gera þetta eins og fagmenn. Við kláruðum þetta með stæl og unnum þetta með 21 marki. Mér finnst það gott, fínt dagsverk,“ sagði Sveinn í samtali við mbl.is eftir leik.
Liðin skiptust á að skora mörk í byrjun leiks og var staðan 3:3 eftir rúma fimm mínútna leik.
„Kannski voru þeir eitthvað heppnir með einhver skot þarna í byrjun sem leka inn. En síðan settum við í nýjan gír og kláruðum þetta.”
Sveinn skoraði tvö mörk í kvöld en annað markið kom frá miðjunni.
„Þessi skottækni er oft kennd við Elliða, nema ég kann þetta líka en hann má eiga þetta.“
Var ekki Þorsteinn Leó [Gunnarsson] að gera þetta líka, er hann með ykkur í kennslu?
„Já, ég veit það ekki, kannski er þetta eitthvað séríslenskt, ég veit það ekki. Þetta er bara faglegt skot, hann liggur alltaf í beinni línu í markið. Ég held þessu bara áfram.“
Ísland mætir Slóveníu í úrslitaleik um toppsæti riðilsins á mánudaginn.
„Bara mjög vel. Slóvenía er á öðru kalíberi en þessi tvö lið sem við erum búnir að mæta núna, við vitum það. Þeir eru með drullu öflugt lið, mjög öfluga leikmenn í öllum stöðum sem eru að spila með bestu liðum í heimi. Þetta verður bara þungt verkefni en við mætum eins og fagmenn og undirbúum okkur fyrir þann leik,” sagði Sveinn að lokum.