Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins í handbolta, var efnilegur knattspyrnumaður áður en hann ákvað að velja handboltann. Faðir hans Hallgrímur Jónasson, sem spilaði m.a. í marki með ÍR og Fram, plataði Viktor á handboltaæfingu og þá var ekki aftur snúið.
„Ég þurfti að vinna fyrir því að verða liðugur. Ég var alltaf fótboltastrákur sem var plataður í markið af pabba mínum. Ég ætlaði heldur betur að verða atvinnumaður í fótbolta en pabbi minn plataði mig á handboltaæfingu.
Ég var í úrtöku fyrir landsliðið, svo ég var allt í lagi í fótbolta. Ég var fínn miðvörður en kannski aðeins of stór fyrir fótboltann. Mér fannst skemmtilegra að spila handbolta og léttara að spila leiki en fannst alltaf leiðinlegt á æfingum,“ útskýrði Viktor Gísli í samtali við mbl.is.
„Í fótboltanum fannst mér æfingarnar skemmtilegri en var alltaf mjög stressaður fyrir leikjunum. Ég var smeykur um að gera mistök. Handboltinn var náttúrulegri fyrir mig einhvern veginn.
Fótboltinn er samt skemmtilegastur á handboltaæfingum. Maður fær hann ekki oft með félagsliði, svo maður nýtur hans mjög með landsliðinu. Ég hef aldrei farið í fótbolta með Wisla Plock og svona fimm sinnum á tveimur árum hjá Nantes,“ sagði Viktor.