„Ég er ótrúlega glaður að vinna,“ sagði Viggó Kristjánsson, markahæsti leikmaður Íslands í sigrinum glæsilega gegn Slóveníu, í samtali við mbl.is.
„Við erum búnir að bíða eftir þessum leik lengi. Spennan var búin að magnast fyrir leikinn og það fór gríðarlega mikil orka í hann hjá okkur öllum. Ég er rosalega ánægður,“ sagði Viggó.
Lokatölurnar, 23:18, segja allt sem segja þarf. Vörn og markvarsla íslenska liðsins var til fyrirmyndar.
„Við vorum í smá vandræðum til að byrja með þegar þeir voru þéttir í vörninni. Við vorum ekki að skora mikið en að sama skapi vorum við ótrúlega góðir í vörninni og þegar þeir fóru í gegn varði Viktor Gísli. Það var góð tilfinning frá fyrstu mínútu,“ sagði hann.
Íslenska liðinu gekk verr að skora undir lok leiksins, þrátt fyrir að fá fín færi. Viggó leið samt alltaf vel.
„Við vorum að komast í færin en við klikkuðum ekkert eðlilega mikið undir lokin. Að sama skapi var þetta aldrei í hættu. Þetta gefur okkur sjálfstraust. Það eru þrír leikir í milliriðli og við megum ekki fara fram úr okkur.
Ísland mætir Egyptalandi í fyrsta leik í milliriðli á miðvikudagskvöld. Sigur í þeim leik fer langt með að tryggja íslenska liðinu sæti í átta liða úrslitum.
„Við fögnum þessu í kvöld en að sama skapi byrjar maður strax í endurheimt og meðhöndlun. Við njótum sigursins en svo förum við að skoða næsta mótherja strax,“ sagði Viggó.