Málað fleiri hundruð Íslendinga

María Dóróthea Jensdóttir stendur í ströngu á leikdögum.
María Dóróthea Jensdóttir stendur í ströngu á leikdögum. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta er búið að vera mjög gaman en rólegt miðað við síðustu stórmót,“ sagði María Dóróthea Jensdóttir, stuðningskona íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is.

María stóð í ströngu í miðborg Zagreb í dag að mála andlit stuðningsmanna Íslands í fánalitunum.

„Mér finnst þetta rosalega gaman. Ég drekk ekki þannig ég fæ að spjalla við fólk hérna í stólnum í staðinn fyrir að tala við þau á barnum,“ sagði hún.

María hefur farið á öll stórmót frá árinu 2022, bæði karla og kvenna.

„Fyrsta mótið var mikil upplifun og allt var nýtt en við fengum ekki andlitsmálningu þar vegna covid og allir voru með grímur. Við reyndum að mála upp að enni og gera það besta úr þessu.

Við fórum svo til Svíþjóðar 2023 og þá var geggjað. Það var mikið af fólki og staðurinn stór. Það gekk rosalega vel og við máluðum svo marga. Maður leit upp í stúku og sá fleiri hundruð Íslendinga sem ég hef málað,“ sagði hún og hélt áfram.

„Mér finnst gaman þegar fólk kemur upp að mér og segir mér að ég hafi málað það í fyrra og árið á undan. Þau eru fastakúnnar.“

Leikurinn við Slóveníu í kvöld er afar mikilvægur fyrir framhald íslenska liðsins á mótinu og er María spennt. „Ég er aðallega spennt frekar en stressuð og ég hlakka til. Ég ætla ekki að spá einhverjar tölur en ég held við vinnum. Ég reyni mitt besta að vera með læti í stúkunni,“ sagði María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert