Handknattleiksþjálfarinn Dagur Sigurðsson kemur til greina sem næsti þjálfari þýska stórliðsins Flensburg.
Það er ísraelski umboðsmaðurinn Hen Livgot sem greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum X en Dagur, sem er 51 árs gamall, stýrir í dag króatíska landsliðinu.
Flensburg er í leit að þjálfara eftir að Dananum Nicolej Kirckau var sagt upp störfum um miðjan desember á síðasta ári.
Livgot greinir frá því að Dagur muni taka við Flensburg þegar heimsmeistaramótinu í Króatíu, Danmörku og Noregi lýkur.
Flensburg er í 5. sæti þýsku 1. deildarinnar með 24 stig, sex stigum minna en topplið Melsungen, en félagið hefur þrívegis orðið þýskur meistari, fjórum sinnum bikarmeistari og þá er liðið ríkjandi Evrópudeildarmeistari.