Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson, tveir af reynslumestu mönnum íslenska landsliðsins í handbolta, eru samherjar hjá Veszprém í Ungverjalandi og herbergisfélagar á HM.
Mbl.is spurði Aron hvernig væri að umgangast Bjarka eins mikið og hann gerir sjálfur.
„Það er krefjandi,“ sagði Aron og hló. „Nei, við Bjarki erum búnir að þekkjast í mörg ár og búnir að vera mjög góðir vinir í langan tíma. Við erum herbergisfélagar og með gríðarlega góðan skilning hvor á öðrum.
Það er enginn feluleikur eða neitt. Við segjum það sem okkur finnst og þá gengur þetta eins og smurð vél,“ sagði Aron.
Hann hrósaði svo Bjarka fyrir að vera góður herbergisfélagi.
„Hann er mjög þægilegur, snyrtilegur og skipulagður. Hann er mjög hress og með góðan tónlistarsmekk. Hann vinnur þetta mikið með manni.“
En hvort er Aron meira fyrir stutthærðan Bjarka eða síðhærðan?
„Ég er meira fyrir hann svona (stutthærðan). Mér finnst hann hrikalega flottur svona,“ sagði Aron.