Rui Silva bjargaði stigi fyrir Portúgal þegar liðið mætti Svíþjóð í 1. umferð milliriðils þrjú á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Bærum í Noregi í dag.
Leiknum lauk með jafntefli, 37:37, en Silva skoraði jöfnunarmark Portúgals þegar 40 sekúndur voru til leiksloka.
Portúgal er í efsta sæti riðilsins með 5 stig en Svíar koma þar á eftir með fjögur stig. Spánverjar geta tyllt sér á topp riðilsins með sigri gegn Noregi síðari í kvöld.
Leikurinn var í járnum allan tímann en Svíar náðu mest þriggja marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks, 18:15, en Portúgalir skoruðu síðustu þrjú mörk hálfleiksins og tókst að jafna metin í 18:18. Þannig var staðan í hálfleik.
Liðin skiptust á að leiða með eins marks mun fyrstu tuttugu mínútur síðari hálfleiks. Svíar voru hins vegar með yfirhöndina á síðustu tíu mínútum leiksins og með eins marks forskot nær allan tímann áður en Portúgalar jöfnuðu metin á lokamínútunni.
Albin Lagergren var markahæstur hjá sænska liðinu með sjö mörk úr sjö skotum en Luis Frade var markahæstur hjá Portúgal, einnig með sjö mörk.