Formaðurinn selur treyjur í Zagreb

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ glaður með nýju treyjuna.
Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ glaður með nýju treyjuna. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta gengur vel. Það kom stór hópur í dag sem er að fjárfesta í nýjum treyjum,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í samtali við mbl.is í miðborg Zagreb.

HSÍ tók sig til og tæmdi lagerinn sinn af nýjum landsliðstreyjum, flaug með hann til Zagreb og seldi á stuðningsmannasvæði íslenska liðsins. Þar var formaðurinn sjálfur áberandi í sölumennskunni.

„Við þurftum að gera eitthvað til að koma til móts við óskirnar. Við fundum fyrir óánægju með að þetta væri ekki komið í sölu og við komum til móts við fólkið með því að gera þetta svona. Þetta eru nokkuð hundruð treyjur,“ sagði hann.

Mikil stemning er í miðborg Zagreb og fjölmargir Íslendingar mættir í króatísku höfuðborgina.

Treyjusalan gekk mjög vel.
Treyjusalan gekk mjög vel. mbl.is/Eyþór Árnason

„Stemningin er alveg frábær. Það er að hlaðast upp í svakalegt stuð í kvöld. Það er mikil eftirvænting og spenna. Maður finnur bæði heima og hér að það er kominn mikill hugur og vilji að fylgja þessu eftir og vonandi gera strákarnir það í kvöld.

Það er einstök upplifun að koma á svona mót. Hér er mikil stemning og einhugur. Velgengnin er svo auka bónus ofan á það,“ sagði Guðmundur.

Sefur alltaf vel

En hvernig er að vera formaður HSÍ á miðju stórmóti?

„Við erum nú ekki mörg á skrifstofunni og í kringum þetta og það er erill en það lendir meira á starfsfólkinu en formanninum. Þó að maður nái að leggja hönd á plóg. Ég næ alltaf að sofa vel.“

Formaðurinn er lítið að stressa sig á leik kvöldsins, þrátt fyrir að ansi mikið sé undir.

„Ég er nokkuð rólegur. Egyptarnir eru stórir, sterkir og erfiðir en ef við náum sama baráttuanda og í síðasta leik þá höfum við þetta,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert