Norðmenn fengu kærkomin stig á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í kvöld þegar þeir lögðu Spánverja að velli, 25:24, í milliriðli þrjú á heimavelli sínum í Bærum.
Norska liðið fór stigalaust í milliriðilinn eftir töp gegn Brasilíu og Portúgal og eini sigurleikurinn þar til í kvöld var gegn liði Bandaríkjanna.
Sigurinn kemur líklega of seint fyrir Norðmenn sem eiga litla möguleika á að komast í undanúrslitin. Portúgal er með 5 stig, Svíþjóð 4, Brasilía 4, Spánn 3, Noregur 2 og Síle ekkert stig í milliriðlinum.
Spánverjar voru yfir nær allan leikinn, 13:10 í hálfleik og 22:19 þegar skammt var eftir. En með frábærum lokaspretti þar sem Norðmenn skoruðu fimm mörk í röð og komust í 24:22 tryggðu þeir sér sigurinn.
Tobias Schjolberg Gröndahl skoraði sjö mörk fyrir Norðmenn í kvöld og Sander Sagosen fjögur.
Imanol Garciandia skoraði sex mörk fyrir Spánverja og Daniel Dujshebaev fimm.