Búningur íslenska landsliðsins í handbolta verður til sölu í Zagreb í Króatíu í dag fyrir fyrsta leik Íslands í milliriðli 4 á HM gegn Egyptalandi í kvöld.
Handbolti.is skýrir frá því að nokkrar töskur með landsliðstreyjum væru á leið til Zagreb og að áætlað væri að selja þær á samkomu Sérsveitarinnar, stuðningssveitar íslensku landsliðanna, á veitingastað í Zagreb í dag.
Veitingastaðurinn ber heitið Johann Frank og koma íslensku stuðningsmennirnir saman þar klukkan 16 að staðartíma, 15 að íslenskum tíma.
Ekki var útlit fyrir að stuðningsmenn gætu keypt nýja búninginn frá Adidas vegna þess að innflutningsaðili hafði ekki fengið treyjurnar frá þýska framleiðandanum.
HSÍ brást hins vegar við því með því að setja hluta af þeim treyjum sem sambandið átti á sölu og ættu þær að berast til Zagreb í dag.