Þetta var rosalega mikilvægt

Orri Freyr þakkar fyrir stuðninginn í kvöld.
Orri Freyr þakkar fyrir stuðninginn í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ég er geðveikt glaður, þreyttur og eitthvað alls konar. Það var sjúkt að vinna þetta. Þetta var rosalega mikilvægt og ég er drullusáttur,“ sagði kampakátur Orri Freyr Þorkelsson, hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Egyptum á HM í kvöld.

Stuðningsmenn íslenska liðsins létu gríðarlega vel í sér heyra í kvöld og tóku yfir Arena Zagreb-höllina í króatísku höfuðborginni.

„Stuðningurinn er ómetanlegur. Það var ógeðslega fallegt að sjá þetta og geðveikt gaman að finna þennan stuðning frá fólkinu og landinu okkar. Þetta var geggjaður leikur í dag.“

Íslenska liðið var með forystu allan leikinn í dag og hélst hún í þremur til fimm mörkum nær allan tímann.

Orri Freyr, lengst til hægri, fagnar í leikslok.
Orri Freyr, lengst til hægri, fagnar í leikslok. mbl.is/Eyþór

„Mér fannst við alltaf vera með frumkvæðið og við héldum vel í forskotið. Við spiluðum mjög góða vörn og svo vorum við betri í sókninni í dag en á móti Slóveníu. Við eigum samt enn þá mikið inni.“

Íslenska liðið gulltryggir sér sæti í átta liða úrslitum með sigri á Króatíu á föstudagskvöld og er í góðu skriði með fimm sigra úr fimm leikjum á mótinu.

„Við unnum Egypta sem eru með drullugott lið. Það var mikilvægt að vinna þá og nú þurfum við að vinna næsta leik og tryggja þetta sæti í átta liða úrslitum.

Mér finnst þetta fáránlega skemmtilegt. Það er eitthvað að verða til hjá okkur og við verðum að halda þessu áfram og keyra á þetta,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert