Janus Daði Smárason, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta, skipti yfir til Pick Szeged í Ungverjalandi frá Magdeburg í Þýskalandi fyrir leiktíðina. Hann kann vel við sig hjá nýju liði í nýju landi.
„Okkur fjölskyldunni líður mjög vel. Þetta er öðruvísi umhverfi en Þýskaland. Fyrstu mánuðirnir fara í að aðlagast. Ég er spenntur fyrir seinni hluta tímabils. Við erum með gott lið og möguleikarnir eru miklir. Maður reynir að verða betri í handbolta,“ sagði Janus við mbl.is.
Ungverska er gríðarlega erfitt tungumál að læra og Janus ætlar ekki að leggja mikinn metnað í hana.
„Ég er ekki góður í henni og ég held það sé óraunhæft markmið að reyna að læra þetta tungumál. Það fer allt fram á ensku því við erum með mörg þjóðerni í liðinu. Það er náttúrulegt og þægilegt að tala ensku,“ sagði hann.