Allar mömmur sammála um það

Stuðningsmenn íslenska liðsins fagna vel í leikslok gegn Egyptalandi.
Stuðningsmenn íslenska liðsins fagna vel í leikslok gegn Egyptalandi. mbl.is/Eyþór Árnason

„Það er búið að vera mjög gaman hérna. Við vorum í Split fyrir einhverjum árum og það var mjög fallegt þar. Það er fínt hér en þetta er ólíkt Split,“ sagði Elsa Hrönn Reynisdóttir, stuðningskona íslenska landsliðsins í handbolta og móðir Bjarka Más Elíssonar í samtali við mbl.is í dag.

Elsa kom til Zagreb á þriðjudag og mætti á leik Íslands og Egyptalands kvöldið á eftir. Ísland vann þann leik og Viktor Gísli Hallgrímsson var valinn maður leiksins.

„Það var geðveik stemning fyrir leik og svo sást það strax í upphafi leiks að við ætluðum að vinna hann, sem við gerðum. Viktor Gísli er svo eitthvað óeðlilega góður,“ sagði hún kát.

Elsa mætti á fyrsta stórmótið í Þýskalandi 2019 og hefur verið reglulegur gestur síðan. Hún viðurkennir að það er stressandi að horfa á soninn spila með landsliðinu.

„Það er mjög stressandi. Hann er einbeittur og rólegur en ég er stressaðri þegar hann fer inn úr horninu. Ég fagna aðeins meira þegar hann skorar og ég held allar mömmur séu sammála um það.“

Höllin í Zagreb verður troðfull í kvöld og eru allir 15.000 miðarnir sem í boði voru fyrir leik seldir. Íslendingarnir verða, eins og gefur að skilja, í miklum minnihluta í stúkunni gegn gestgjöfunum.

„Ég held við vinnum þótt við verðum 1.000 Íslendingar gegn 14.000 Króötum. Þetta verður samt erfitt því Dagur er kominn með bakið upp við vegg. Mér finnst samt eins og við séum að fara að vinna. Það mun líka heyrast meira í okkur í stúkunni,“ sagði Elsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert