„Annar úrslitaleikur“

Elliði Snær Viðarsson fagnar innilega eftir að hann náði í …
Elliði Snær Viðarsson fagnar innilega eftir að hann náði í vítakast gegn Egyptalandi. Íslenska liðið lagði Egypta að velli í Zagreb í fyrrakvöld, 27:24. mbl.is/Eyþór

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson, línu- og varnarmaður íslenska landsliðsins í handbolta, er mjög ánægður með spilamennsku íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu hingað til enda Ísland með fjóra sigra í fjórum leikjum. Fyrir vikið er íslenska liðið í góðri stöðu til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum mótsins. Sigur gegn Króatíu í kvöld gulltryggir sæti í útsláttarkeppninni.

„Við höfum byrjað tvo síðustu leiki mjög vel og verið mjög svalir allan seinni hálfleikinn. Mér er búið að líða mjög vel í báðum leikjum,“ sagði Elliði við Morgunblaðið.

Íslenska liðið hefur spilað mun betur gegn sterkum andstæðingum í mikilvægum leikjum en á EM fyrir ári og haldið þétt í forskot sem liðið hefur náð snemma leiks.

„Við höldum betur í forystu og erum jafnari. Við missum ekki niður þriggja marka forystu á augabragði. Það er helst það sem við höfum bætt okkur í frá því á síðasta móti,“ sagði hann.

Gaman að finna meðbyrinn

Ísland hefur verið á mikilli siglingu og unnið átta keppnisleiki í röð og aðeins tapað einum leik af síðustu tíu. Fyrir vikið hefur myndast mikill meðbyr með liðinu bæði innan vallar og utan.

„Það er gaman að finna þennan meðbyr og maður finnur fyrir því að það er gaman bæði á Íslandi og hérna úti. Fólk hefur gaman af því að horfa á þessa leiki. Eftir sigur í stórum leikjum er mjög gaman að vera í íslenska landsliðinu,“ sagði hann.

Elliði hefur átt stóran þátt í sterkri vörn Íslands á mótinu til þessa með magnaðan Viktor Gísla Hallgrímsson þar fyrir aftan. Þegar íslenska vörnin smellur er mjög erfitt við hana að eiga.

Viðtalið við Elliða má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert