Erfitt dagsverk í kvöld

Dagur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, stjórnar króatíska liðinu gegn því …
Dagur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, stjórnar króatíska liðinu gegn því íslenska í Zagreb í kvöld. mbl.is/Eyþór

Króatar hafa verið eitt af stórveldunum í karlahandboltanum í þrjátíu ár, eða síðan þeir komust í fyrsta skipti á verðlaunapall á stórmóti árið 1995. Þá fengu þeir silfurverðlaunin á HM á Íslandi eftir ósigur gegn Frökkum í úrslitaleik í Laugardalshöllinni.

Þeir eiga í verðlaunasafninu tvenn ólympíugullverðlaun (1996 og 2004) og einn heimsmeistaratitil (2003) ásamt þrennum silfurverðlaunum á HM, þrennum á EM og svo bronsverðlaunum á Ólympíuleikum, HM og þrisvar á EM.

En króatíska liðið sem mætir Íslandi í Zagreb í leiknum mikilvæga á HM 2025 í kvöld hefur ekki átt sama gengi að fagna því frá því að liðið fékk bronsið á EM í Póllandi árið 2016 eru einu verðlaun þess silfrið á EM 2020.

Króatar enduðu í 11. sæti á Evrópumótinu fyrir ári. Dagur Sigurðsson tók við þjálfun liðsins eftir mótið og fór með það á Ólympíuleikana í París í sumar þar sem Króatar enduðu í 9. sæti af 12 liðum og komust ekki áfram úr riðlakeppninni.

Ísland vann fyrir ári

Íslendingar og Króatar hafa mæst margoft á stórmótum og Króatar oftast haft betur. Þeir lögðu íslenska liðið að velli á EM 2016, á EM 2018, á HM 2019 og á EM 2022. En í síðasta mótsleik þjóðanna, á EM 2024 í Köln fyrir ári, hafði Ísland betur og sigraði 35:30 í eftirminnilegum leik.

Í riðlakeppninni á yfirstandandi móti hafa Króatar unnið leikina sem þeir áttu að vinna, 36:22 gegn Barein og 33:18 gegn Argentínu. Þeir töpuðu hins vegar mikilvægasta leiknum á eigin heimavelli gegn Egyptum, 28:24, þar sem stuðningur 15.000 áhorfenda dugði ekki til að ná í stigin sem króatíska liðið þurfti á að halda.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert