Brasilía er komin áfram í átta liða úrslit heimsmeistaramóts karla í handknattleik eftir öruggan sigur gegn Svíþjóð í milliriðli þrjú í Bærum í Noregi í dag.
Leiknum lauk með þriggja marka sigri Brasilíu, 27:24, en þeir Hugo Da Silva og Haniel Langaro voru markahæstir í brasilíska liðinu með fjögur mörk hvor.
Brasilía er með 6 stig í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum meira en Svíþjóð. Noregur og Svíþjóð eru einu liðin sem geta náð Brasilíu að stigum en Brasilía er með betri innbyrðisviðureign á bæði lið og er því komin áfram í 8-liða úrslitin í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar.
Þá er Portúgal, sem er í efsta sæti riðilsins með 7 stig, einnig komið áfram í átta liða úrslitin eftir sigur Brasilíu. Svíþjóð og Noregur sitja því bæði eftir með sárt ennið.
Brasilíska liðið var sterkari aðilinn allan tímann og leiddi með fimm marka mun í hálfleik, 14:9. Brasilía var með fimm marka forskot, 25:20, þegar fimm mínútur voru til leiksloka og þann mun tókst Svíum ekki að vinna upp.
Jonathan Carlsbogard var markahæstur hjá Svíþjóð með sex mörk og Jim Gottfridsson skoraði fimm mörk.