Gamla ljósmyndin: Vonbrigði

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Íslenskir landsliðsmenn í handknattleik hafa upplifað sæta sigra og sár vonbrigði á stórmótum í gegnum tíðina. Þjóðarsálin hefur upplifað slíkar tilfinningar með þeim enda hefur ástarsamband þjóðarinnar og handboltalandsliðsins staðið í meira en hálfa öld. Landsliðsmönnum er hampað þegar vel gengur og gagnrýndir þegar illa gengur. 

Ekki er alltaf nóg að vinna alla leikina í riðlinum á HM til að ná í verðlaun. Það sást núna á HM í Zagreb og það sást einnig á HM í Svíþjóð árið 2011. Þá vann Ísland alla fimm leikina í riðlinum en mætti ógnarsterkum handboltaþjóðum í milliriðli: Þýskalandi, Spáni og Frakklandi. Þeir leikir töpuðust allir og einnig leikurinn gegn Króatíu um 5. sætið. 

Meðfylgjandi mynd tók Golli þegar niðurstaðan lá fyrir í leik Íslands og Spánar í milliriðlinum í Jönköping á HM 2011 þar sem Spánn vann 32:24. Spánn náði afgerandi forskoti í fyrri hálfleik og ágætur leikur íslenska liðsins í síðari hálfleik var ekki nóg til að eiga möguleika á sigri. 

Á myndinni má sjá markamaskínuna Guðjón Val Sigurðsson miður sín að leiknum loknum. Myndin lýsir því vel hversu miklar tilfinningar eru í spilinu í hæsta gæðaflokki afreksíþrótta.

Guðjón Valur fór í aðgerð á hné snemma árs 2010 eða skömmu eftir að Ísland fékk bronsverðlaun á EM í Austurríki. Hún heppnaðist ekki sem skyldi og önnur aðgerð tók við hjá Guðjóni í maí. Mikil óvissa ríkti því um hvort hann gæti leikið á HM 2011. 1. desember 2010 lék hann á ný með Rhein Neckar Löwen. Þegar að HM 2011 kom hélt Guðjón þó ekki aftur af sér frekar en fyrri daginn og lék 60 mínútur trekk í trekk í mótinu. Hann var næstmarkahæsti leikmaður Íslands á HM 2011 með 47 mörk og 68% skotnýtingu. 

Guðjón Valur upplifði miklu fleira en vonbrigði á stórmótum og lék þrívegis um verðlaun með íslenska landsliðinu. Á EM 2002, á ÓL 2008 og EM 2010. 

Guðjón Valur lék 364 A-landsleiki og skoraði 1.875 mörk. Markaskor sem mun enn vera heimsmet hjá leikmanni í karlalandsliði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert